Færsluflokkur: Bloggar

HPV bólusetning - góð og fyrirbyggjandi eða dauði og djöfull.

Við hjónin vorum eiginlega búin að ákveða að láta bólusetja dóttur okkar og treysta þeim sérfræðingum sem sjá um heilbrigðismálin á Íslandi.  En svo heyrir maður að mjög skiptar skoðanir séu á þessari bólusetningu.  Nú þegar alveg er að koma að því að bólusetja á barnið, þá fara að renna á mann tvær grímur, hvað maður eigi að gera.  Sennilega er best að leggjast í lestur og svo undir feld til að ákveða hverju maður á að trúa.   En það þarf að hafa hraðann á því bólusetningin er á þriðjudaginn hér í okkar sveit. 

Í amstri dagsins.

Í dag ætlaði skólinn að hafa útivistardag.   Sumir í fjallgöngu aðrir á jörðu niðri.  Hér er svartaþoka og rigning.  Börnin mín voru velútbúin fyrir rigningu, en vonandi hafa þau ekki farið mikið inní þokuna.   Tryggvi skrapp á rúntinn til Hvolsvallar eldsnemma í morgun og ætlar að koma heim í kvöld.  Hann er að sækja kornvals sem við vorum að kaupa af bónda þar í nágrenninu.  Marteinn frændi hans fór með honum.   Ætli þetta sé góður dagur fyrir tiltekt ?  Eða á maður bara að huga að búfénaðinum.  3 kýr fara á sláturhús í dag.  Ég er nú hætt að syrgja þær, nema um eitthvað sérstakt uppáhald sé að ræða.  Fyrstu árin grét ég þegar kýr þurfu að fara en svo komst ég yfir þessa tilfinningasemi, enda hætt að hugsa um kýrnar sem gæludýr.    Jæja, best að hætta þessu hangsi.

Kvígurnar og dyntirnir í þeim

Maður er að reyna að sæða kvígurnar með nautum af nautastöðinni, en annaðhvort eru þær svona góðar með sig (og vilja almennilegan dr... ) því að þær halda illa á því sæði, en svo ef við látum Akur (eða það þarfanaut sem við eigum hverju sinni)  klára dæmið þá er í allt í lukkunar velstandi.  Kannski vilja þær bara prufa náttúrulega aðferð einu sinni, því þeirra örlög eru að húka með hinum kúnum það sem eftir er ævinnar.

Þetta var nú formálinn á því sem nú byrjar. 

Hún Króna mín nr. 381 átti kvígu um daginn, undan Akri.  Hún var nefnd Iðunn.  

Tígla bar kvígu undan Akri.  Hún var nefnd Frigg.

Kleina bar kvígu undan Akri.  Hún var nefnd Freyja.

Eins og glöggir lesendur hafa nú gert sér í hugarlund, þá hef ég verið að lesa goðafræði fyrir börnin mín fyrir svefninn.  Þar sem ég er svo mikið fyrir nafnaþema í fjósinu, þá sjáið þið að nú eru gyðjunöfn í gangi.  Jafnvel verða goðin máski kvengerð og kvígur skírðar Óða, Þóra og Loka.  En það kemur í ljós hversu margar fæðast það sem eftir er árs.

Ein  


Hvað verður í blogginu.

Í þessu bloggi mínu ætla ég að skrifa hugrenningar mínar, og um innihaldslaust daglegt líf, eitthvað kannski um kýr og búskap og svo hvaðeina sem mér dettur í hug.  Svo gæti ég líka skáldað eitthvað ef mér dettur það í hug. 

Frábær endurupplifun

Hvað haldið þið að ég hafi séð í Nettó á föstudaginn.  Ótrúlegt en satt, búin að bíða eftir þessu í rúm 20 ár.  TRIX !!!!  Já, þetta marglita morgunkorn sem var mitt uppáhald í gamla daga.  Reyndar blandað saman í kassa með cocoa puffsi og lucky charmsi, en í körfuna fór einn pakki.   Á laugardagsmorguninn  var spenna í loftinu þegar pakkinn var opnaður.  Eitthvað hafa þeir breytt litnum á kornunum, enda var það eitthvað með litarefnin sem var ástæða þess að það hætti að fást.   Og, hvernig bragðaðist það ?  Kannski of miklar væntingar, en gott var það, en ekki eins gott og mig minnti.  Kannski hefði verið betra að eiga það í minningunni, en hugsanlega kaupi ég það aftur fyrir jólin.

Byrjuð að blogga

Þá er ég búin að búa til bloggsíðu og vonandi fer ég að fara í rithaminn svo eitthvað verði skráð á þetta blogg.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband